Fyrsti heimafundur Ratsjár Austurlands fór fram þann 13. desember hjá Haföldunni HI Hostel á Seyðisfirði. Þátttakendur skoðuðu húsakynni og rýndu í tækifæri, áskoranir, rekstur og rekstrarumhverfi fyrirtækisins.
Hafaldan HI Hostel er eitt af sjö ferðaþjónustufyrirtækjum sem taka þátt í Ratsjá Austurlands. Saga fyrirtækisins er einstök, en reksturinn teygir sig yfir 40 ár. Starfsemin byggir á mikilli frumkvöðlastarfsemi stofnenda, þegar lítil sem engin ferðaþjónusta var hér á landi og sér í lagi ekki á Austfjörðum. Með staðfestu, innsæi, skipulagningu og útsjónarsemi er fyrirtækið enn í dag í miklum blóma og tækifærin eru mikil. Í dag er Hafaldan HI Hostel með starfssemi á tveimur stöðum á Seyðisfirði, í gamla spítalanum og í gamalli verðbúð.
Gert er ráð fyrir að allir heimsækja alla og að vinnufundur sem fram fer hjá einum aðila setji fókus á hans rekstarmál og umhverfi auk þess sem sérstakt fundaþema verður hverju sinni. Í Ratsjánni kynnast þátttakendur verkfærum sem efla þá sem stjórnendur, spegla sig í reynslu annarra fyrirtækja og efla tengslanetið. Þessi fyrsti heimafundur einkenndist af því að læra inn á aðferðafræði Ratsjárinnar, kynnast öðrum þátttakendum og skipuleggjendum. Farið var yfir notkun SVÓT og Design thinking í greiningarferlinu og munu þátttakendur tileinka sér þessi tól og önnur á komandi vikum. Að auki munum við aðstoða þátttakendur við að tileinka sér áhersluatiði Áfangastaðarins Austurlands og markhópagreiningu Íslandsstofu.
Þrátt fyrir mikið flæði af nýjum upplýsingum á þessum fyrsta heimafundi, þá náði hópurinn ótrúlegum árangri og í lok dags lágu fyrir athuganir, umsagnir og tillögur sem allar byggjast á gríðarlegri reynslu þátttakanda.
Við hlökkum mikið til næsta heimafundar sem verður þann 9.janúar næstkomandi og þá hjá Sölumiðstöð Húsi Handanna.